þriðjudagur, 27. desember 2016

Frá Bangkok til Keflavíkur, í september 2012


Ferðalagið okkar frá Bangkok í Thailandi til Íslands (í september 2012).



Ath. að þetta var skrifað fáeinum dögum eftir þá ferð, og er hér að mestu óbreytt.



Við hófum nú fyrir fáeinum dögum ferðalag okkar frá Bangkok í Thailandi til Reykjavíkur á Íslandi. Að öllu jöfnu að þá þarf ekki mikið að skrifa um svona flugferðir. Þær ganga venjulega snuðrulaust fyrir sig og ekkert í raun sem þarf að skrifa um.

En þó að í upphafi hafi þetta litið út fyrir að vera svona “VENJULEG” ferð að þá breyttist það nú nokkuð fljótt. Við undirbúning, reyndum að halda kostnaðinum í lágmarki og fundum ferð sem tók lengri tima, en var í staðin töluvert undir þeim verðum sem gengur og gerist. Þetta ferðalag átti að taka langan tíma, um 42 tíma en þar sem við áttum meira af tíma en peningum að þá ákváðum við að taka þetta flug, og jafnvel þó við reiknuðum með að fjölskyldan yrði mjög þreytt eftir svona ferð.

Flugið átti að vera á þessa leið.

  1. Frá Bangkok til Colombo á SriLanka. Rúmlega 3ja tíma flug að kvöldi og við ættluðum að eyða nóttinni á flugvellinum og fara í flug til London 14 tímum síðar.
  2. Frá Colombo til London-Heathrow. Yfir 11 tíma flug. Við ættluðum að taka minibus þaðan til Luton flugvallar og eyða svo nóttinni á þeim flugvelli og fara í flug til Íslands um 10 tímum síðar.
  3. Frá London-Luton til Keflavík á Íslandi. Um 3 tíma flug.



Samtals átti þetta að vera um 42 tímar og auðvitað reiknaði maður með að fjölskyldan yrði nokkuð þreytt við heimkomuna.

Konan mín er Thailensk og þarf auðvitað vegabréfsáritun til Íslands. Við vorum búin að fara í það ferli og hún var komin með Schengen áritun til Íslands (og þá auðvitað til alls Schengen-svæðisins). Og vegna þess að við vorum að fara á milli flugvalla í Englandi (sem er fyrir utan Schengen), þá var maður búin að kanna þær reglur sem þar gilda. Ég var búin að kanna heimasíðu Bresku vegabréfaeftirlitsins og búin að finna það út að sem „Transit“ þyrfti hún enga áritun. Fjölmörg lönd og þar með talið Thailand þurfa ekki að sækja um Transit visa ef vissum skilyrðum er fullnægt (allavega eftir upplýsingum af vef Breska vegabréfaeftirlitsins). Þessi skilyrði eru eftirfarandi.



(þetta voru þau skilyrði sem giltu 2012, nú er búið að breyta þessu)

Ferðamaður sem á rétt á “Transit without visa” TWOV verður að uppfylla eftirfarandi skilyrði.

  1. Að koma til Bretlands með flugi og fara frá Bretlandi með flugi.
  2. Timi milli komu og brottfarar má ekki fara yfir 24 Klukkustundir.
  3. Ferðamaðurinn verður að vera með “Confirmed” flugmiða frá Bretlandi.
  4. Ferðamaðurinn verður að vera með gilda vegabréfsáritun til Áfanga-lands



Ég var auðvitað búin að lesa þessar reglur oftar en einusinni og oftar en tvisvar. Búin að þræða línu fyrir línu og vera alveg með það á hreinu að konan þyrfti ekki að sækja um áritun til Bretlands, heldur ættum við að getað farið með Minibus (sem við vorum búin að bóka og greiða fyrir), til Luton flugvallar og beðið þar eftir fluginu okkar til Íslands (sem við vorum auðvitað líka búin að bóka og greiða fyrir).



Við hófum svo ferðalagið til Colombo. Allt gekk vel og við lentum þar á eðlilegum tíma eftir rúmlega 3 tíma flug. Við vorum þar yfir nóttina á flugvellinum og fórum svo að hliðinu fyrir brottför okkar til London og vorum þar á réttum tíma. Þar var auðvitað þetta hefðbundna „Check“ og við það „check“ sáu flugvallarstarfsmenn að konan mín hafði enga áritun til Bretlands. Ég sagði þeim að við mundum bara fara í „Transit“ í Bretlandi og ættum að vera innan þeirra reglna sem þar giltu um Transit. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig (og tryggja flugfélaginu að það lendi ekki í neinum skaða), þá höfðu starfsmennirnir samband við Breska vegabréfaeftirlitið til að forvitnast um þessar reglur. Sá starfsmaður sem tók við símtalinu vildi tala við mig, og auðvitað var það sjálfsagt. Ég sagði honum frá okkar ferðalagi og sagði honum jafnframt af þessum upplýsingum sem ég hafði fengið af vefsvæði þeirra. Þessi starfsmaður sagði mér að bragði að þetta væri allt rétt hjá mér... en hins vegar hefði vegabréfaeftirlitið alltaf síðasta orðið í þessari ákvörðun (sem ég skildi auðvitað, auðvitað vildu þeir getað stöðvað glæpamenn og skipulagða glæpastarfsemi og annað sem er ekki talið æskilegt að fá inn í landið). Hins vegar datt mér aldrei í hug að þetta „síðasta orð vegabréfaeftirlitsins“, væri notað til að stöðva 5 manna saklausa fjölskyldu á leið sinni heim til Íslands!!!

Eftir einhverja umhugsun að þá tilkynnti þessi starfsmaður Breska vegabréfaeftirlitsins „að þó konan mín væri með GILDA SCHENGEN-VEGABRÉFAÁRITUN til Íslands að þá hefði hann samt enga tryggingu fyrir því að henni verði hleypt inn í landið (Íslands)“. Í framhaldinu tilkynnti hann mér að hann muni ráðleggja starfsmönnum flugfélagsins að taka okkur EKKI með í þetta flug til London!!!!!

Maður auðvitað verður í hálfgerðu sjokki. Ég var búin að greiða fyrir allt farið heim, greiða fyrir ferð á milli flugvalla í Bretlandi, og það var búið að undirbúa að taka á móti okkur á Keflavíkurflugvelli við heimkomuna....

Ég bara skyldi ekki þessa ákvörðun og vildi reyna að skýra mál okkar, svo ég reyndi að segja „but.....“, maðurinn greip framí fyrir mér og sagði að þetta væri hans endanleg ákvörðurn. Ég reyndi annað „but!....“ en aftur var gripið frammí og sagt “No this is my final desission and there is nothing you can do about it.“ „Give me contact to the Airline officer”.

Mér var auðvitað meinílla við að gera það, en hafði auðvitað engan annan kost, svo ég varð að láta flugvallarstarfsmannin fá síman og bíða svo eftir að hann tilkynnti okkur, að „vegna þessarar ákvörðunar starfsmanns Breska vegabréfaeftirlitsins að þá gæti flugfélagið ekki tekið okkur með í þetta flug til London“.



Við vorum auðvitað í algeru rusli og vissum ekkert hvað yrði næst. Eftir nokkrar langar mínutur að þá kom þessi flugvallarstarfsmaður aftur til okkar, og sagði okkur að það eina sem við gætum gert væri að fá flug beint inn á Schengen svæðið (þar sem konan mín væri með gilda vegabréfsáritun þangað). SriLankan Flugfélagið flaug bæði til Frankfurt og til Parísar og á annan áfangastaðinn ættum við að fara. Síðar tilkynnti flugfélagið okkur að þeir ættluðu að koma eins mikið á móti okkur og þeir gætu, og mundu breyta flugmiðunum okkar (okkur að kostnaðarlausu), og útvega okkur flug annaðhvort til Frankfurt eða til Parísar. Síðan kom í ljós að öll flug til Frankfurt voru fullbókuð til 22 september, svo flugfélagið útvegaði flug til Parísar þann 19 sept (eða eftir einn og hálfan sólahring). Þeir útveguðu okkur líka gistingu á litlu hóteli með morgun-, hádegis- og kvöldmat, þar til við færum í flugið (og það var okkur líka að kostnaðarlausu).

Þetta flugfélag kom eins mikið á móti okkur í þessum vandræðum okkar eins og það mögulega gat og við erum þeim mjög þakklát hvernig þau brugðust við þessu. Ástæða er til að endurtaka hvaða flugfélag um er að ræða þar sem þeir gerðu það mikið fyrir okkur. Þetta er flugfélagið SriLankan-Air og í framtíðinni munum reyna eftir megni að velja það flugfélag þegar við veljum okkur flug.



Þá hófst auðvitað mikil leit að flugi frá París til Keflavíkur. Í upphafi þessarar greinar að þá sagði ég að við höfðum valið þetta flug þar sem við reyndum að halda flugverðinu eins lágu og við gátum, en fyrsta leit að flugi frá París gaf okkur hærra verð en allt flugið frá Bangkok til Íslands ásamt kostnaðinum fyrir minbus á milli flugvalla í London. Verðið frá París þann 19 september fyrir okkur 5 (3 persónur yfir 12 ára og 2 börn, 4ra og 10 ára) var nærri 500 þúsund. Það var of stór pakki og ég bað vini okkar heima (sem voru í betra netsambandi en ég, þar sem ég var bara að nota símann), að athuga með flug (og t.d. frá París til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands). Fáeinum klukkutímum síðar að þá hringdi vinur minn í mig og sagði mér að hann hefði fundið fargjald frá París til Keflavíkur að kvöldi 20 september (komutíma eftir miðnætti til Keflavíkur), á mjög góðu verði (innan við 100 þús. fyrir okkur öll). Við tókum því auðvitað og ég bókaði það með farsímanum.

Við flugum svo til Parísar eftir miðnætti aðfaranótt 19 september og vorum komin þangað eftir rúmlega 11 tíma flug, og lentum klukkan 9 að morgni 19 september. Þar ákváðum við fjölskyldan að bíða peningalítil á flugvellinum í þann eina og hálfa sólahring fyrir flugið okkar heim. Við vorum svo lent á Keflavík rétt eftir miðnætti aðfaranótt 21 september eftir að hafa verið 5 daga á leiðinni frá Bangkok til Keflavikur.

Ég var svo reiður yfir þessari ákvörðun Breska vegabréfaeftirlitsins og fannst engin ástæða til annars en að láta vita af þessu. Breska vegabréfaeftirlitið gefur út upplýsingar á heimasíðu sinni um þær reglur sem gilda um vegabréfsáritun til Bretlands. Maður gerir sig alltaf grein fyrir því að auðvitað vilja allar þjóðir spornað við að fá glæpalíð inn í landið, en að ráðast á venjulega fjölskyldu á leið heim, fjölskyldu með 3 börn sem engin hætta stafar af, það datt manni auðvitað aldrei í hug að mundi gerast. Og sú afsökun að segja að það sé óvíst að henni verði hleipt inn í landið á Íslandi (þrátt fyrir að vera með Schenngen-vegabréfsáritun), er auðvitað nánast út í hött. Það er ekki eins og maður fái svona áritanir frítt í morgunkornspökkum! Nei það er nefnilega töluvert ferli að fá svona áritun, þar sem maður þarf að skýra vel frá ástæðum fyrir ferðinni inn á Schengen, sýna tryggingar, sýna fram á framfærslu og þaðan af.

Að segja við mann eftir þetta ferli að það sé óvíst að aðilinn fái að koma inn í landið er bara nánast út í hött. Ég veit EKKERT hvað raunverulega lá á bak við þessa ákvörðun en hef ENGA trú á að það sé algengt að venjulegt fjölskyldufólk (sem eigi börn og maka sem eru Íslenskir ríkisborgarar), sé neitað um inkomu þrátt fyrir fullgylda vegabréfsáritun.



Takk fyrir.

Kjarri – thaiiceland

Kjartan Adolfsson

Engin ummæli:

Skrifa ummæli